sunnudagur 8. maí 2022
Það er nú ekki eins og allt hafi stoppað í fjósinu, þó "fréttir" þaðan hafi verið færri en oft áður. Því til staðfestingar, birtum við mynd af tveimur kvígukálfum, sem fæddust fyrir nokkrum dögum. Það voru ákveðin tímamót þegar við settum merkin í eyrun á þeim, en þær eru fyrstu kvígukálfarnir, þar sem DNA sýnataka er framkvæmd um leið og eyrnamerkin eru sett í.
Sá fróðleikur sem fylgir hér fyrir neðan kemur af vefsíðu rml.is - sem er vefsetur Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins. Það fyrirtæki heldur utan um ræktunarstarf og ráðgjöf í nautgriparækt.
"DNA sýnataka er hluti af verkefni sem nefnist erfðamengisúrval. En erfðamengisúrval er úrvalsaðferð sem byggist á að greina þétt erfðamörk (SNP) á skilgreindum svæðum tiltekinna litninga og áhrif þeirra á eiginleika ræktunarmarkmiðsins í erfðahópnum. Þannig hefur verið greindur verulegur fjöldi skilgreindra merkigena sem tekist hefur að staðsetja og tengja við magnerfðavísa (QTL) sem stýra þeim eiginleikum sem eftirsóknarverðir þykja.
Erfðamengisúrval eykur kynbótaframfarir vegna aukins öryggis á kynbótamati, aukins úrvalsstyrkleika og styttingu kynslóðabils. Það hefur sýnt sig vera sérlega hagnýtt við kynbætur eiginleika með lágt arfgengi og þeirra sem eru mælanlegir seint á æviskeiði gripanna. Þá er mikilvægt að hafa í huga að öryggi kynbótamats föður og móður verður hið sama sem þýðir að val nautsmæðra verður mun öruggara en áður."