sunnudagur 30. maí 2021
Það kemur fyrir að náttúruöflin fara óblíðum höndum um okkur mannfólkið. Nægir þar að nefna eldgos, flóð, jarðskjálfta og það sem við fengum að reyna á föstudaginn, þurrkar og hvassviðri. Hluta af föstudeginum rauk jarðvegur úr flögum hjá okkur, við lítinn "fögnuð viðstaddra"...!!!
Brugðum við á það ráð að setja "regnspíssinn" á mykjudreifarann og úða vatni yfir flögin í þeirri von að hefta fokið. Undir kvöldmatarleytið fór að rigna nóg til þess að jarðvegurinn hætti að rjúka. Nú er bara að vona að fræið og kalkið hafi ekki farið líka.
Því má bæta við, að ef marka má fréttir úr öðrum landshlutum, þá höfum við sloppið með "skrekkinn", en bæði í Vatnsdal og undir Eyjafjöllum var umtalsvert meira fok. Vonum við að bændur þar komist yfir þessar "hamfarir" og gangi vel í "baráttunni" við náttúruöflin.
Vegna anna við að bjarga verðmætum, gafst ekki tími til þess að taka myndir af "hörmungunum", læt fylgja með mynd af svæðinu sem varð fyrir "barðinu" á náttúrinni.