sunnudagur 15. desember 2024
Stjarna okkar bar s.l. nótt tveimur kvígukálfum. Það er kannski ekki í frásögur færandi, nema fyrir þá staðreynd að þetta var fjórði burður Stjörnu og í fjórða skipti sem hún kemur með tvíkelfinga. Hún er því búin að eiga 8 kálfa í fjórum burðum, tvö naut og sex kvígur.
Kvígurnar sem fæddust í nótt, fengu nöfnin Evrópa og Rea, en Evrópa er eitt af tunglum Júpiters og Rea er eitt af tunglum Satúrnusar (höldum okkur við "stjörnufræðina"). Þær eiga eldri systur sem heita Ariel og Miranda, en það eru nöfn á tveimur af tunglum Úranusar.
Á meðfylgjandi myndum má sjá þær mæðgur, en myndirnar voru teknar í morgun rétt áður en Stjarna var mjólkuð. Sú huppótta er Evrópa og hún er u.þ.b. 30 mínútum eldri en Rea, sem er einlit rauð.