laugardagur 28. ágúst 2021
Það er nokkuð víst að hefði því, sem þessar myndir sýna, verið lýst fyrir 40 - 50 árum, hefði viðkomandi verið litin hornauga.
Það er ótrúleg breyting á vinnuaðstöðu við mykjukeyrslu, sem hefur orðið á þeim 55 árum sem undirritaður man. Nú situr bóndinn/verkefnastjórinn í hægindastól, á stuttermabol og sokkaleystunum, umkringdur tölvuskjáum og fullt af tökkum.
Lítil rafmagnsfjarstýring er notuð til að gangsetja lestunarbúnaðinn og það tekur aðeins örfáar mínútur að fylla 12 tonna dreifarann.
Þegar undirritaður var að komast til vits og ára sátu menn á opnum dráttarvélum og mokuðu mykjunni upp í dreifara sem tóku brot af því magni sem sá dreifari sem nú er notaður tekur og vinnslubreiddin u.þ.b. 1/10 af því sem nú er.
Stærð dráttarvélanna hefur líka breyst aðeins. Nú er notuð 135 ha dráttarvél og 12 tonna dreifari. Fyrir 50 árum var stærsta dráttarvélin 37 hö og dreifarinn tók innan við 1 tonn. (fp).