sunnudagur 12. mars 2023
Í dag fórum við í góðum hópi vina og frændfólks á Skjaldbreið, "fjallið allra hæða val" eins og segir í ljóði Jónasar Hallgrímssonar. Lagt var upp frá Heiðarási fyrir hádegi og komið til baka aftur "fyrir kaffi".
Ferðin gekk í alla staði mjög vel, bjart og fallegt veður, en mjög kalt, frostið fór niður í - 16°C á fjallinu og það var stekkings vindur af norðri. Færið var einstaklega gott, harðfenni sem vart markaði í.
Það varð minna úr "nestisneyslu" en áformað var, þar sem samlokunnar voru gegnfreðnar þegar upp á fjallið var komið. Var því brugðið á það ráð, að taka þær heim aftur og neyta þeirra þar.
Á meðfylgjandi myndum má sjá "aðstæður" á fjallinu og útsýnið. En af Skjaldbreið er mög viðsýnt til allra átta.
Fjallið er 1.060 m há dyngja, sem myndaðist í langvinnu gosi fyrir rúmlega 9.000 árum.
Stuttu eftir að síðustu ísöld lauk, runnu frá Skjaldbreið mikil hraun sem náð hafa suður til Þingvallavatns. Gríðarleg gosvirkni varð í kjölfar jöklahörfunar á Þingvallasvæðinu og mynduðust tvær umfangsmiklar dyngjur, Skjaldbreiður og Eldborgir, sunnan Hrafnabjarga.