þriðjudagur 22. júní 2021
Síðast liðinn föstudagsmorgun var aðkoman í fjósinu heldur ömurleg. Ein besta kýrin lá dauð upp í bás, hafði orðið bráðkvödd um nóttina. Kvöldið áður var ekkert sem benti til annars en hún væri við "hestaheilsu". En svona getur víst gerst og ekkert annað að gera en fjarlægja "líkið".
Fyrir hádegið komu starfsmenn MAST til þess að taka heilasýni, en það er nauðsynlegt til þess að geta staðfest við evrópusambandið að Ísland sé laust við kúariðu. Þar á bæ ekkert mark tekið á "yfirlýsingum", hvorki frá embættismönnum eða stjórnamálamönnum. Einungis vísindalegar niðurstöður eru teknar gildar.
Að sýnatöku lokinni var hræinu fargað á viðeigandi hátt.
Núna gengur Skruna um víðáttur Draumalandsins, þar sem safríkt og lystugt vallarfoxgrasið breiðir úr sér eins langt og augað eygir.