laugardagur 28. ágúst 2021
Í framhaldi af fyrri pistli, kemur upprifjun á fortíðinni. Læt fylgja nokkrar myndir af gömlum búnaði og tækjum sem hafa komið við sögu í mykjudreifingu í Káranesi.
Elsti hluturinn sem ég hef fundið er dreifistútur af hlandforarkassa sem var á hestvagni og dreginn um túnið af hesti/hestum..? Lögunin á dreifispjaldinu er athyglisverð.
Einnig læt ég fylgja myndir af gömlum mykjudreifara sem var notaður fram undir 1967-70. Hann var dregin af dráttarvél og dreifibúnaðurinn var drifin af hjólum dreifarans. Nú er lítið annað eftir en járnavirkið, timbrið er að mestu horfið, en það var timburbotn og hliðar í honum.
Síðustu myndirnar eru teknar þegar verið var að tæma gamla haughúsið í síðasta skipti, en þá voru komnir nýrri og stærri traktorar en voru notaðir þegar haughúsið og fjósið voru ný, en aðferðin sú sama. Mykjudreifarinn er einnig nýrri og stærri en forverar hans.