föstudagur 5. mars 2021
Aðalfundur Mjólkursamlags Kjalarnesþings (hagsmunafélag kúabænda) var haldin á Laxárbakka í Hvalfjarðarsveit í gær. Á fundinn kom Höskuldur Sæmundsson verkefnastjóri markaðsmála hjá Landsambandi kúabænda og flutti mjög áhugavert erindi um markaðsmál, loftslagsmál, framleiðsluferla. félagsmál o.m.fl. sem tengist kúabúskap.
Sérstaka athygli vakti kynning hans á bjórframleiðslu, en eins og allir vita er bjór landbúnaðarafurð og eru bjórframleiðendur í beinni samkeppni við búfé um hráefni/fóður, og í sumum tilfellum einnig við aðra matvælaframleiðendur. Þá spilltu leikrænir tilburðir Höskuldar við framsetningu á efninu ekki fyrir...!
Í hléi var fundargestum boðið upp á úrvalsgóða kjötsúpu að hætti hússins með dúnamjúku rúgbrauði og smjöri. Síðan tóku við hefðbundin aðalfundarstörf, kosning stjórnar og fulltrúa á aðalfund LK. Í lokin voru afgreiddar nokkrar tillögur sem lagðar verða fyrir aðalfund LK.